Tímaritið Vera, 3. tbl. 2001
Guðrún Pétursdóttir
Í hugum margra vesturlandabúa er "rasismi" eða kynþáttafordómar útdautt fyrirbæri. Sumir tengja rasismann við nasistatímann í Þýskalandi, aðrir KuKuxKlan hreyfingunni í Bandaríkjunum eða ofbeldisfulla nýnasistahópa. En rasisminn er margslungið fyrirbæri og hafa birtingarmyndir hans breyst og þróast í samræmi við breytingar samfélagsins.
Í dag er honum komið á framfæri eftir formlegum og óformlegum leiðum.
Formlegu leiðirnar eru pólitískar ákvarðanir, fjölmiðlar og í gegnum menntakerfið.
Óformlegu leiðirnar eru t.d. vegna áhrifa frá fjölskyldunni, vinum, á skemmtistöðum eða í gegnum önnur persónuleg samskipti.
Í fjölmiðlum í Skandinavíu og á Íslandi er oft fjallað um innflytjendur sem "vandamál". Þeir koma til landsins og það verður til vandamál. Það sem hins vegar minna hefur verið rætt um, er ábyrgð "innfæddra" á þeim árekstrum sem upp geta komið milli menningarhópa. Eitt af því sem veldur árekstrum eru fordómar. Orðið for-dómar felur í raun í sér merkingu þess, þ.e. við dæmum fyrir fram, dæmum eitthvað/einhvern sem við þekkjum ekki. En þá vaknar sú spurningin, hvernig það er hægt? Hvernig er hægt að dæma eitthvað eða einhvern sem maður ekki þekkir? Hvernig er hægt að mynda sér skoðun á einstaklingi eða jafnvel hópi fólks án þess að þekkja hann eða hafa nokkra möguleika á að þekkja allan hópinn? Það getum við vegna þess að við höfum gert okkur ákveðnar hugmyndir af viðkomandi manneskju eða hópi, myndir sem við lærum að trúa og festast í hugum okkar. Myndirnar fáum við víða úr umhverfinu, t.d. úr bókum, kvikmyndum, teiknimyndasögum og ekki síst fjölmiðlum. Þessar myndir köllum við "staðalmyndir" (stereotypes). Einföld lýsing á því ferli sem á sér stað og veldur árekstrum í mörgum tilfellum er eitthvað á þessa leið:
Fyrsta skrefið eru þær staðalmyndir sem við lærum af umhverfinu um fólk af ólíkum uppruna en þessar staðalmyndir eru stór hluti af félagsmótun barna á vesturlöndum. Með þessar myndir í huga þykjumst við vita nákvæmlega hvernig einhver ákveðinn hópur fólks ER, jafnvel þótt við höfum aldrei kynnst neinum sem af einhverjum ástæðum hefur verið flokkaður inn í þann hóp.
Við þessa flokkun eru notuð ýmis einkenni, t.d. er flokkað eftir menningu, trú, uppruna, hegðun eða eftir útlitseinkennum eins og húðlit, líkamsstærð, hárgerð eða öðrum einkennum. Þegar t.d flokkað er eftir útlitseinkennum eða uppruna, er öllum einstaklingum sem teljast til þess hóps gefnir ákveðnir eiginleikar svo sem latir, duglegir, gáfaðir, skemmtilegir, frekir o.s.frv. Þannig verður til staðalmynd um hóp fólks sem ekkert á annað sameiginlegt en að vera með ákveðin sameiginleg útlitseinkenni eða að vera fætt í sömu heimsálfu. Staðalmyndirnar gera okkur í raun kleift að dæma án þess að þekkja. Ef við höfum engar staðalmyndir til að fara eftir, þá getum við heldur ekki dæmt.
Þegar einstaklingur eða hópur fólks er dæmdur eftir staðalmyndum en ekki sem einstaklingur þá er um að ræða fordóma. Þannig má segja að forsenda allra fordóma séu staðalmyndir og vil ég sérstaklega benda fjölmiðlum á ábyrgð þeirra í myndun staðalmynda og þar með fordóma.
Oft er um að ræða fréttir, sem við tökum ekki einu sinni sérstaklega eftir af því að þær snerta okkur ekki beint, en þeir einstaklingar sem flokkaðir hafa verið undir þann hóp sem fjallað er um, líða beint fyrir fréttaflutninginn. Íslenskir fjölmiðlar taka nær undantekningarlaust fram í fréttum sínum af hvaða þjóðerni afbrotamenn eru eða hvort þeir eru af erlendum uppruna. Smám saman verður til sú staðalmynd að útlendingar fremji oftar glæpi en innfæddir. Þessar staðalmyndir eru síðan forsenda fordóma í hugum fólks. Hættan sem felst í fordómum er fólgin í þeirri staðreynd að fordómar í hugum fólks eru oftast næsta skref á undan mismunun þ.e. við látum fordómana í hugum okkar hafa áhrif á hegðun og framkomu gagnvart fólki sem tilheyrir ákveðnum hópi fólks.
Næsta skref í þessu ferli til árekstra er mismunun. Þ.e. þegar fólk lætur fordóma eða rasisma hafa áhrif á hegðun sína gagnvart einstaklingum sem tilheyra ákveðnum hópum innan samfélagsins. Ein skilgreining á mismunun er á þessa leið: "þegar einstaklingar eða hópar fólks fá síðri meðhöndlun en aðrir vegna sameiginlegra einkenna eins og t.d. húðlitar, þjóðernis, trúarbragða eða annarra sameiginlegra einkenna".
En hvernig lýsa þá fordómarnir og mismununin sér? Lýsa þeir sér alltaf með ofbeldi og augljósri mismunun? Ef svo væri, mætti halda því fram að á Íslandi væru litlir fordómar gagnvart fólki af ólíkum uppruna. En svona einfalt er þetta ekki.
"Hvesdags rasismi" eða duldar birtingarmyndir fordóma verða yfirleitt aðeins þeir varir við, sem verða fyrir þeim. Við hin sem ekki verðum fyrir þeim vitum ekki einu sinni af þeim.
Skipulagður ofbeldisfullur rasismi er ennþá í lágmarki á Íslandi en hversdags rasismi ekki. En hvernig lýsir sér hversdags rasismi? Hann lýsir sér t.d. með því að fólk er látið afskiptalaust og einangrað, það er talað niður til þess, það er tortryggt, því er sýndur hroki og yfirlæti, það fær verri þjónustu, það er uppnefnt og niðurlægt, því er sýnd ókurteisi, óþolinmæði og pirringur svo eitthvað sé nefnt. Þetta kemur ekki fram á síðum dagblaðanna og fólk sem er í þeirri aðstöðu að vera útlendingur í ókunnu landi, kvartar sjaldnast yfir neikvæðri framkomu í sinn garð.
Þetta er talið algengasta form rasisma á Vesturlöndum í dag. Þannig má í raun túlka hversdags rasisma sem almennt neikvætt viðhorf innfæddra gagnvart fólki af erlendum uppruna, sem það lætur koma fram í umgengni sinni við einstaklinga sem tilheyra þeim hópi. Eins og felst í orðinu, er hér um að ræða viðhorf, sem fólk verður vart við á hverjum degi og er hluti af daglegu lífi bæði einstaklinga meiri- og minnihlutahópsins. Viðhald rasismans í upplýstum samfélögum nútímans á sér m.a. stað vegna þess að þetta form hans er ekki viðurkennt sem rasismi.
Mismunun leiðir til átaka. Þegar einstaklingur hefur upplifað einhverja tegund mismununar í ákveðinn tíma er líklegt að hann hætti að sætta sig við hana og rísi upp gegn óréttlætinu. Þetta á t.d. við um aðra kynslóð innflytjenda í Evrópu þ.e. fólk sem er fætt og uppalið í landinu en verður þó daglega fyrir mismunun vegna uppruna síns.
Þeir sem mismuna, bæði stofnanir og einstaklingar, gera það af þeirri sannfæringu að þeirra sé rétturinn sem meðlima meirihlutahópsins. Þegar þessi mismunandi viðhorf rekast á er hætta á átökum.
Af þessu má ljóst vera að rasisminn í samfélaginu lýsir sér fyrst og fremst á dulinn hátt. Aðeins sjaldan brýst hann út í opinskáu ofbeldi eða árásum.
Rasismi er afar neikvætt orð í samfélögum V-Evrópu og því hefur hann verið skilgreindur á einfaldan hátt. Þ.e. á meðan við trúum því að rasismi birtist aðeins opið og ofbeldisfullt eða með samtökum nýnasista, getum við afneitað tilvist hans í samfélaginu og þar með viðhaldið honum. Með því að afneita tilvist hans, viðhöldum við honum og leyfum honum að þróast yfir í ofbeldisfullt form. Því er svo mikilvægt að við viðurkennum nú þegar hin duldu form rasismans og byrjum að vinna gegn þeim en bíðum ekki eftir að þessi neikvæðu viðhorf í hugum fólks nái að þróast yfir í opinn og ofbeldisfullan rasisma.