Morgunblaðið 14. desember 2004
Guðrún Pétursdóttir
Fjölbreytileikinn er kostur en ekki vandamál
Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum undanfarnar vikur vegna morðsins á hollenska leikstjóranum Van Gogh og einnig hefur verið umræða í fjölmiðlum í tengslum við niðurstöður Gallupkönnunar á viðhorfum Íslendinga til innflytjenda. Af því tilefni langar mig að ræða nokkur atriði sem innlegg í þessa umræðu.
Í fyrsta lagi langar mig að ræða umrædda könnun Gallup á viðhorfum Íslendinga til fólks af erlendum uppruna. Könnun bendir til þess að neikvæð viðhorf gagnvart innflytjendum hafi aukist á Íslandi undanfarin ár, sérstaklega frá árinu 2001. Hvað gerðist eiginlega árið 2001, sem gæti ýtt undir þessa þróun? Hvers vegna á sér stað sama þróun út um alla Evrópu? Í lok ársins 2001, nánar tiltekið 11. september áttu sér stað atburðir, sem settu af stað ferli atburða út um allan heim sem ekki verður séð fyrir endan á. Eitt af afleiðingum hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum var gífurleg fjölmiðlaumfjöllun, ekki aðeins um hryðjuverkin, heldur um islamstrú. Ekki aðeins um trúarbrögðin, heldur hefur verið dregin upp ógnvænleg mynd af
þeim sem þessa trú aðhyllast út um allan hinn vestræna heim. Múslimum er lýst sem hryðjuverkamönnum, ofbeldismönnum, kvennakúgurum og öfgatrúarmönnum svo eitthvað sé nefnt. Eins og við vitum, sem vinnum að málefnum innflytjenda, þá eru neikvæðar staðalmyndir gagnvart ákveðnum hópum fólks alltaf forsenda fordóma. Því þarf engan að undra að fordómar í samfélaginu aukist í kjölfar slíkra atburða og fjölmiðlaumfjöllunar í tengslum við þá. Morðið á hollenska kvikmyndaleikstjóranum kallaði á sambærilega fjölmiðlaumfjöllun þar sem einstaklingur fremur glæp en staðalmyndin festist við alla sem eiga það sameiginlegt með glæpamanninum að aðhyllast ákveðin trúarbrögð. Jafnvel þótt það sé eflaust ekki ásetningur fjölmiðla á Íslandi að ýta undir fordóma gagnvart fólki af erlendum uppruna, þá gerist það sjálfkrafa þegar svotil eingöngu neikvæð umræða á sér stað varðandi ákveðinn samfélagshóp. Á sama tíma er mun sjaldnar minnst á árásir á innflytjendur í Evrópu, sem þó er alvarlegt vandamál í mörgum evrópskum samfélögum. Í Þýskalandi var t.d. á fyrstu 6 mánuðum ársins 2000 dæmt í 140 tilfellum beinna árása á innflytjendur vegna uppruna þeirra auk 620 tilfella sem falla undir “önnur brot gegn innflytjendum” (http://www.dir-info.de/). Ein af umræðunum sem upp hafa komið í íslenskum fjölmiðlum undanfarið er ofbeldi múslimskra karlmanna gagnvart konum. Kúgun og ofbeldi gagnvart konum er samfélagslegt vandamál á Íslandi, ekki vegna þess að hér búi svo margir múslimar, heldur vegna þess að hér búa of margir karlmenn sem beita konur og börn ofbeldi inni á heimilum sínum. Það er samfélagslegt vandamál þegar heimilisofbeldi er ekki tekið alvarlega og það stöðvað um leið og upp kemst. Alveg sama af hvaða ástæðum eiginmaður beitir eiginkonu sína ofbeldi eða af hvaða uppruna viðkomandi eiginmaður er, það á einfaldlega að stöðva það ofbeldi með lögum og refsingum eins og fyrir önnur lögbrot. Sé það raunin að sá hópur karlmanna sem beitir oftar ofbeldi inni á heimilum sínum sé af ákveðnum uppruna, ættu fleiri karlmenn af þeim uppruna að vera dæmdir fyrir heimilisofbeldi. Svo einfallt er það.
Þegar þáttastjórnendur og blaðamenn spyrja hvort fjölmenningarsamfélagið hafi verið mistök, að of mikið umburðarlyndi hafi átt sér stað, að innflytjendur hafi ekki viljað aðlagast samfélaginu o.s.frv. er eins og verið sé að kasta olíu á eld þeirra, sem líta á innflytjendur sem annarsflokks íbúa þessa lands, líta á þá sem óvelkomna gesti. Hvernig getur fjölmenningarsamfélagið verið mistök? Átti að byggja múra milli allra landa Evrópu þegar fólk fór í auknum mæli að flytjast milli landa (ekki bara til Evrópu heldur líka frá Evrópu) eða nær fjölmenningin aðeins til fólks, sem flytur frá löndum utan Evrópu? Hvernig væri efnahagsleg og menningarleg staða Evrópu í dag, ef engin hreyfing hefði verið á íbúum og vinnuafli til og frá álfunnar? Hvernig ímyndar fólk sér menningarlega einsleita Evrópu árið 2004? Og talandi um gesti. Fólkið sem var sótt til Tyrklands eftir seinni heimsstyrjöldina vegna þess að vantað sárlega fólk til að byggja upp Þýskaland eftir seinni heimsstyrjöldina var ekki gestir, það var íbúar, hluti af samfélaginu. Fólk, sem kemur til Íslands vegna þess að vinnuveitendur hafa sóst eftir þeim eru heldur ekki gestir. Það er hluti af íslensku samfélagi, það borgar sína skatta og útsvar, það er framleiðendur og neitendur, það fylgir sömu lögum og reglum og aðrir íbúar landsins. Jafn réttháir og mikilvægir íbúar og þeir sem geta rakið ættir sínar til víkinga. Það er ekki gestir, það er íbúar. Ferðamenn eru gestir.
“En þeir vilja ekki aðlagast íslenskri menningu” er önnur setning sem við höfum heyrt lengi á námskeiðum okkar þar sem við fjöllum um fordóma. Hvað er íslensk menning? Er það mín menning eða menning afa míns eða dóttur minnar? Menning okkar er ekki sú sama. Er það merki þess að vilja ekki aðlagast að halda áfram að borða asískan mat þótt maður búi á Íslandi? Eða ef fólk kýs að klæða sig í örðuvísi fötum en ég klæði mig? Eða að tala móðurmálið við börnin sín? Hvar ætlum við að draga mörkin um hvað er íslensk menning og hvað ekki? Og hvar ætlum við að draga mörkin um það, hvað er nauðsynleg aðlögun og hvað ekki? Það eru ein landslög í hverju landi. Þeim ber öllum að fylgja, hvort sem það hentar þeirra menningu eða ekki. Þar drögum við mörkin gagnvart Íslendingum og íslenskum menningarhópum og þar eigum við líka að draga mörkin gagnvart fólki af erlendum uppruna.
Annað sem gefið hefur verið í skyn í hinum ýmsu fjölmiðlaumfjöllum er að þjóðir Evrópu séu farnar að efast um kosti fjölmenningarlegra samfélaga.
Eins og ég minntist á hér að framan er ofbeldi gagnvart innflytjendum alvarlegt vandamál í mörgum Evrópulöndum. Sem betur fer hefur þetta vandamál ekki verið alvarlegt á Íslandi þótt fordómarnir birtist í annarri mynd. Ef raunin er sú, að neikvæð viðhorf gagnvart innflytjendum sé að aukast, er nauðsynlegt að bregðast við strax, nýta þá aðsöðu okkar að geta ennþá unnið fyrirbyggjandi starf. Fjölmenningarleg kennsla og fræðsla eru einu leiðirnar sem við höfum til að kenna komandi kynslóðum, af hvaða uppruna sem börnin eru, að takast á við fjölbreytileika samfélagsins á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Að þjálfa þau í samskiptum við ólíka einstaklinga, hvort sem þau eru ólík vegna uppruna, hæfni, menntunar, efnahags, félagslegrar stöðu, fötlunar eða hvers annars sem gerir samfélag okkar fjölbreytt. Kenna næstu kynslóðum að meta og skilja kosti fjölbreytileikans í stað þess að reyna að banna hann.
Við hjá ICI bjóðum upp á fjölda faglegra námskeiða á ýmsum sviðum sem öll eiga það þó sameiginlegt að markmið þeirra er að vinna gegn fordómum og rasisma í samfélaginu. Fjöldi evrópskra kennara og annarra sem vinna að málefnum innflytjenda hefur sótt námskeið ICI á Íslandi auk þess sem við höfum haldið námskeið fyrir sérfræðinga á þessu sviði í Þýskalandi og Belgíu. Vissulega standa námskeiðin íslenskum vinnustöðum, stofnunum og skólum stöðugt til boða (sjá heimasíðu) en áhuginn og aðsóknin hefur þó verið mun meiri meðal evrópsra kennara. Við viljum því hvetja alla sem áhuga hafa á að kynna sér fræðsluframboð okkar að skoða það á heimasíðunni og hafa samband ef þið sjáið eitthvað þar sem vekur áhuga.